Yfirlýsing frá Félagi fagfólks í fjölskyldumeðferð
Stjórn Félags fagfólks í fjölskyldumeðferð (FFF) lýsir yfir áhyggjum sínum af þróun mála vegna þjónustu til handa fjölskyldum á Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) á Akureyri. FFF tekur heils hugar undir með þeim sem vakið hafa athygli á þeirri gríðarlegu afturför sem virðist vera í vændum á HSN. Í tæp 30 ár hefur HSN á Akureyri boðið upp á fjölskyldumeðferð þar sem áhersla hefur verið lögð á að efla fjölskylduforvarnir og að mæta mismunandi þörfum barnafjölskyldna.
Sú meðferð hefur miðað að því að hlúa að innviðum fjölskyldunnar, efla foreldrahæfni og fjölskylduheilbrigði. Þessi vinna hefur hlotið mikla athygli og þótt til fyrirmyndar bæði hér á landi og annars staðar og fékk meðal annars viðurkenningu frá WHO árið 1998. Þá má vísa í rannsókn sem var gerð á þjónustunni árið 2012, þar sem kom fram að 76% þeirra sem notið hefðu þjónustunnar sögðust vera ánægð með hana og að helsta umkvörtunarefnið var að biðtími eftir þjónustunni væri of langur.
Vitað er að góð tengsl í fjölskyldum skipta miklu varðandi félagslega, líkamlega og andlega líðan. Samskipti innan fjölskyldna hafa mjög mikið að segja um það hvernig fólki reiðir af þegar það lendir í áföllum og/eða veikindum. Þá er einnig vitað að fyrstu tengsl barna við foreldra sína hafa mikil áhrif á þroska og framtíðarheilsu þeirra.
Nú berast þær fréttir að í umróti og breytingum innan HSN hafi starfandi fjölskyldufræðingar þar sagt upp störfum og að ekki hafi verið auglýst í þær stöður eftir fagfólki með framhaldsmenntun í fjölskyldumeðferð sem er mikilvæg forsenda fyrir þjónustu af þessum toga.
Það ætti öllum að vera ljóst hve mikilvæg fjölskylduvinna er og að fjölskyldumeðferð ætti að standa til boða á öllum heilsugæslum landsins. Hingað til hefur HSN verið í fararbroddi í þróun þjónustu sem þessari hér á landi. FFF vill hvetja stjórnendur HSN til að hlúa að fjölskyldumeðferðinni svo að mikilvægt uppbyggingarstarf og þekking glatist ekki. Ef ofangreind hvatning dugar ekki til þess að stjórnendur HSN hugsi sinn gang er hæstvirtur heilbrigðisráðherra hvattur til að blanda sér í málið og standa vörð um þau úrræði sem fagleg fjölskyldumeðferð stendur fyrir.
Stjórn Félags fagfólks í fjölskyldumeðferð
Bragi Skúlason
Björg Karlsdóttir
Þorleifur Kr. Níelsson
Þuríður Hjálmtýsdóttir