Á alþjóðlegum degi fjölskyldunnar hélt Fjölskyldufræðingafélag Íslands morgunverðarfund í safnaðarheimili Langholtskirkju. Á fundinum mátti greina þann fjölbreytta hóp fjölskyldufræðinga og störf þeirra. Erindin fjölluðu um mjög víðtæka þjónustu sem fagaðilar innan hópsins sinna. Fjölskyldufræðingar veita fjölskyldum hjálp í margvíslegum aðstæðum – má þar nefna tengslamyndun móður og barns, samtal og samskipti innan fjölskyldunnar í daglegu lífið, við áföll, veikindi, öldrun og samskiptavanda o. fl.
Nefna má dæmi um að þegar einstaklingur veikist þá veikist oft allt fjölskyldukerfið í kringum hann, því fylgir vanmáttur, oft uppgjöf og oftar en ekki þöggun í hópnum í kring. Þetta er mikilvægt að takast á við en ekki bara með einstaklingum sem veikist heldur öllum sem að koma.
Fjölskyldufræðingurinn veitir samtalsmeðferð fyrir einstaklinginn innan fjölskyldunnar, eða fyrir hópinn, á samtalið við hjón, pör, við systkini, eða við foreldri, barn, hinn langveika eða aðstandendur.
Markmiðið okkar allra er að leysa vanda fjölskyldunnar og auka samtal og samheldni fjölskyldunnar og benda samfélaginu á að sú eining sem fjölskyldan er, er sú stoð sem þarf að styrkja og halda utan um í fjölbreyttum aðstæðum. Áherslan þarf að vera á heildstæða þjónstu við fjölskylduna, en ekki fjölbreytta ósamtengda þætti eins og hið opinbera þjónustukerfi býður upp á í dag.
Markmið fjölskyldufræðinga er að efla vitun samfélagsins á mikilvægi þess að styrkja fjölskylduna sem eina heild í aðstæðum hverju sinni. Félagið vill benda á að oft er hægt að samþætta þjónustu og samþætta vinnu með fjölskylduna og mæta þeim á þeim stað sem þær eru hverju sinni í staðinn fyrir að eyða orku þjónustuþegans sjálfs í það að hlaupa á milli kerfa – fá allar upplýsingar í pörtum og eyðir svo of mikilli orku í að pússla púslinu saman sjálfur.
Hægt er að finna upplýsingar um sjálfstætt starfandi fjölskyldufræðinga á www.fjolskyldumedferd.is