Greinin Fjölskyldufræðingar minna á mikilvægi fjölskyldumeðferðar eftir Þorleif Kr. Níelsson félagsráðgjafa og fjölskyldufræðing birtist í dag á kjarninn.is á alþjóðlegum degi fjölskyldunnar.
Fjölskyldufræðingar minna á mikilvægi fjölskyldumeðferðar
Alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar 15. maí
15. maí er merkilegri dagur en margan grunar, þetta er alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar. Til hamingju kæru fjölskyldur, þetta er dagurinn ykkar. Það er alltof mikið um það í erli hversdagsins að við gleymum því hvað það er nauðsynlegt og mikilvægt að vera partur af fjölskyldu. Í dag skulum við hugsa til okkar nánasta fólks og gleðjast yfir því að eiga ástvini sem þykir vænt um okkur og bera hag okkar fyrir brjósti.
Sálfræði er ekki eina svarið
Á Íslandi hafa klínískir sálfræðingar verið duglegir að minna á ágæti sitt og þeirrar meðferðar sem þeir veita. Oft heyrist í umræðunni að hugræn atferlismeðferð sé nánast eina viðtalsmeðferðin sem gerir eitthvað gagn. Slík umræða er villandi. Ekki má misskilja orð undirritaðs á þann veg að honum sé illa við sálfræðilega meðferð. Því fer fjarri enda hefur hún hjálpað mörgum með sinn vanda. Undirritaður vill einungis vekja athygli á því að til eru fleiri meðferðarform sem eru alveg jafn vel rannsökuð og koma ekki síðu að góðum notum til að fást við ýmis vandamál sem koma fram. Hafa ber í huga að eitt þarf ekki að útiloka annað og margvísleg meðferðarform geta unnið vel saman í því að bæta hag þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.
Fjölskyldumeðferð er frábær
Fjölskyldumeðferð kannast margir við en því miður vita ekki allir út á hvað hún gengur. Fjölskyldumeðferð er gagnreynt og árangursríkt meðferðarúrræði (Evidence-based practice) þegar þarf að vinna með: líkamleg og andleg veikindi, áföll af ýmsum toga, sorgarferli, barnauppeldi, ágreining af ýmsu tagi, kynlífsvandamál og breytt fjölskyldumynstur í kjölfar skilnaðar svo dæmi séu tekin. Það er algengur misskilningur að það dugi að taka þann veika í fjölskyldunni og veita honum einstaklingsmeðferð. Þetta er ekki svona einfalt. Oftast þarf líka að sinna þeim sem næst honum standa.
Félag fagfólks í fjölskyldumeðferð – www.fjolskyldumedferd.is
Félag fagfólks í fjölskyldumeðferð (FFF) var stofnað 24. maí 1994. Síðan þá hefur FFF unnið að því að gera fjölskyldumeðferð meira gildandi í íslensku samfélagi. Styrkleiki þessa fags er sá að fjölskyldumeðferð er þverfaglegt fag. Oftast klárar fólk grunnnám í öðrum greinum en bætir svo við sig sérhæfingu og framhaldsmenntun í fjölskyldumeðferð. Síðan 2009 hefur verið boðið upp á meistaranám í fjölskyldumeðferð á Íslandi. Það hefur gert það að verkum að nú starfar fjölbreyttur hópur fólk með þessa sérmenntun í margskonar störfum. Óhætt er að segja að nám í fjölskyldumeðferð komi sér víða vel þar sem unnið er með fólk. Nýlega setti FFF á fót nýja heimasíðuna www.fjolskyldumedferd.is. Sú síða er bæði hugsuð fyrir fagfólk og almenning og mun með tíð og tíma bætast inn á hana áhugavert efni sem vert er að fylgjast með
Fjölskyldufræðingur – leggðu orðið á minnið!
FFF stefnir að því að sækja um löggildingu fyrir þá sem starfa á sviði fjölskyldumeðferðar. Sérstakur löggildingarhópur innan félagsins er að vinna að því að senda umsókn um löggildingu til Velferðarráðuneytisins. Partur af þessu ferli er að ákveða það fagheiti sem á að fara með í áframhaldandi löggildarferli. Félagar í FFF kusu um fagheitið á dögunum og hlaut fjölskyldufræðingur nokkuð afgerandi kosningu. Fjölskyldufræðingur er gott og þjált fagheiti sem nær utan um víðfemt starfssvið þeirra sem eru með fjölskyldumeðferð sem sérmenntun. Vonir FFF standa til þess að almenningur taki fagheitinu fjölskyldufræðingur fagnandi og þyki þegar fram líða stundir ekkert sjálfsagðara enn að leita sér hjálpar hjá fjölskyldufræðingi ef eitthvað bjátar á.
Byrgjum brunninn áður en barnið dettur ofan í
Aðgengi almennings að fjölskyldumeðferð er því miður takmarkað eins og staðan er í dag. Það er afar brýnt að hið opinbera fari að opna augun fyrir nauðsyn þess að fjölga stöðugildum fjölskyldufræðinga hjá opinberum stofnunum ásamt því að niðurgreiða fjölskyldumeðferð hjá sjálfstætt starfandi fjölskyldufræðingum. Slík ákvörðun myndi hafa margvísleg jákvæð áhrif í för með sér eins og að stuðla að því að fólk hafi val um hvert það leitar eftir þjónustunni og ekki síst að fólk geti leita sér hjálpar áður en í algjört óefni er komið. Það er því miður alltof algengt í dag að ýmsar stofnanir sem eiga að þjónusta fjölskyldur bendi hvor á aðra. Það leiðir til þess að fjölskyldur koma oft að lokuðum dyrum í kerfinu og fá ekki þá hjálp sem þær þurfa. Þessu er hægt að breyta. Vilji hjá ráðamönnum þjóðarinnar er allt sem þarf.
Þorleifur Kr. Níelsson
félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur